Alþjóðleg athafnavika á Íslandi

Fréttir

15. nóvember 2012 - Engar athugasemdir

Úrslit Snilldarlausna Marel

Tölvuvagn, Takkaarmbönd, Herðabeltistré og Gardínuhljóðdeyfir eru sigurvegarar Snilldarlausna
Marel 2012 (www.snilldarlausnir.is ). Verðlaun eru veitt í fjórum flokkum sem sjá má hér að
neðan. Veitt eru peningaverðlaun, 75.000 kr. fyrir Snilldarlausnina, 50.000 kr. fyrir hinar auk
þess sem Skaparinn, sérstakur farandverðlaunagripur er veittur þeim skóla sem stendur að baki
Snilldarlausninni 2012. Skaparinn var hannaður af nýútskrifuðum vöruhönnuðum frá LHÍ en smíðaður
í framleiðsludeild Marel nú í haust. Samtök atvinnulífsins veita svo tillögunni sem líklegust er talin til
framleiðslu sérstaka viðurkenningu.

Markmið Snilldarlausna Marel er sem fyrr að gera sem mest virði úr verðlitlum hlutum. Undanfarin
þrjú ár hafa þessir hlutir verið herðatré, pappakassi og dós en í ár máttu þátttakendur vinna með
hvaða hluti sem er. (http://youtu.be/Dhz8I8100UA )

Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur hefur umsjón með Snilldarlausnum en bakhjarlar keppninnar
eru Marel og Samtök atvinnulífsins.

Snilldarlausnin 2012 kemur af Reykjanesinu en hana eiga þeir Gunnar Örn Bragason og Hrannar Elí
Pálsson úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tölvuvagninn er lítill vagn á hjólum undir borðtölvuturna
með sérstakri pumpu sem fest er við turninn. Vagninn má nota til að færa turninn úr stað og einnig
nota pumpuna til að lyfta tölvunni upp og eiga þannig auðveldar með að tengja snúrur og annað
við bakhluta turnsins. Þeir félagar lýsa hugmyndinni sinni sjálfir þannig: „Tölvuvagninn er gerður úr
blikkjárni og gamalli hurðapumpu sem við félagarnir settum svo snyrtilega saman. Þetta er algjör
BYLTING í tölvuheiminum.“ http://www.youtube.com/watch?v=QhJVX5rYeU0

Frumlegasta hugmyndin er nýjasti tískufylgihluturinn úr Skagafirðinum en þær Sædís Bylgja
Jónsdóttir og Helga Pétursdóttir í Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki endurnýttu
gömul fartölvulyklaborð og gerðu úr þeim stórglæsileg armbönd sem þær kalla Takkaarmbönd. Þær
lýsa hugmyndinni svona: „Eftir miklar pælingar hvað við ættum að gera þá datt okkur í hug að nota
takka af ónothæfu fartölvu lyklaborði og búa til armbönd. Kostnaður var lítill sem enginn því við
áttum mest allt sem við þurftum að nota við þetta. Aðferðin er bara að losa takkana af og mála 2
umferðir og láta það svo þorna. Þegar takkarnir eru orðnir þurrir þá má líma þá á roðið með lími og
láta það bíða í augnablik. Þá er það bara tilbúið til notkunar!“
http://www.youtube.com/watch?v=MG9a5ndd4NY&feature=youtu.be

Flottasta myndbandið kemur beint úr skápunum þeirra Árna Steins Viggóssonar og Hauks
Kristinssonar úr Verzlunarskóla Íslands en þeir notuðu belti til að auka rýmið í fataskápum.
Hugmyndina kalla þeir Herðabeltistré. Árni og Haukur lýsa hugmyndinni svo: „Við notuðum gamalt
belti sem við vorum hættir að nota til að spara pláss í fataskápnum, gerðum fleiri göt á beltið og
hengdum hreðatré í götin og hengdum svo beltið á herðatrésslána.“ http://www.youtube.com/watch?v=2t5l8cr0df8&feature=plcp

Líklegust til framleiðslu þótti hugmyndin um gardínuhljóðdeyfi sem Suðurnesjamennirnir Þorgils
Arnar Þórarinsson, Halldór Jón Grétarsson og Theódór Már Guðmundsson unnu úr afskorningum
utan af rafmagnsköplum. „Með screengardínum myndast hávaði þegar er opinn gluggi og rok úti
og getur verið mjög pirrandi. Hugmyndinn uppgvötaðist í rafmagnsfræði þegar við vorum að vinna
með rafmagnskapla og sáum afskurðinn af köplunum og hugsuðum með okkur að það væri hægt að
nýta þetta í eitthvað og með gardínuna á milljón og þá ákváðum að prófa þetta og það virkaði svona
ljómandi vel.“ Auk peningaverðlauna fá Arnar, Halldór og Theódór sérstaka viðurkenningu Samtaka
atvinnulífsins fyrir þeirra framlag. http://youtu.be/9HLClaQuNcU

11. nóvember 2012 - Engar athugasemdir

Alþjóðleg Athafnavika hafin á Íslandi

Alþjóðleg Athafnavika (e. Global Entrepreneurship Week) verður haldin í fimmta sinn á heimsvísu dagana 12. – 19. nóvember. Vikan er hugsuð sem hvatningarátak fyrir fólk til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, innan sem utan fyrirtækja. Á meðan vikan stendur yfir er áætlað að hátt í 40.000 viðburðir eigi sér stað í 130 löndum með fleiri en 7.000.000 þátttakenda.

Innovit, nýsköpunar og frumkvöðlasetur, er umsjónaraðili Alþjóðlegrar Athafnaviku á Íslandi. Þemað á Íslandi í ár er að kveikja sem flesta neista á meðan vikan stendur yfir. Allir hafa einhvern tímann fengið góða hugmynd, en oft þarf viðburð til að byrjað sé að vinna að hugmyndinni. Dæmi um það að vinna að hugmyndinni getur til dæmis verið að gera stutta leit á internetinu um hugmyndina, ræða hugmyndina við vini og vandamenn, senda hana í hugmyndakeppni eða stofna fyrirtæki utan um hugmyndina.

Í Athafnavikunni viljum við hvetja landsmenn til að kveikja sem flesta neista svo að sem flest verkefni líti dagsins ljós. Það getur einfaldlega falið í sér að hvetja fólk í kringum okkur að vinna að hugmyndum sínum eða aðstoða þau með ráðum. Þá fara einnig fram fjölmargir viðburðir í vikunni sem hafa það markmið að hvetja fólk áfram s.s. Athafnateygjan (action-band.com) sem felur í sér að fleiri hundruð athafnateygjur eru gefnar til landsmanna. Allir sem fá teygju í hönd eiga að skrá á slóð, gefna upp á teygjunni, hverju þeir ætli að koma í framkvæmd og láta í kjölfarið nýjan einstakling fá teygjuna með hvatningu til góðra verka. Dæmi um aðra viðburði eru “Creative Business Cup”, þar sem Íslensk sprotafyrirtæki fara til Kaupmannahafnar til að kynna hugmyndir sínar fyrir erlendum fjárfestum. Einnig má nefna viðburðina “póstkort frá frumkvöðlum”, þar sem frumkvöðlar deila reynslusögum sínum af því að hafa stofna eigið fyritæki, fyrirlestraraðir árangursríkra fyrirtækja, sem settar verða af stað hjá Háskóla Íslands, kynningu á úrslitum Snilldarlausna, hugmyndakeppni menntaskólanna og opnun Gulleggsins, stærstu hugmyndakeppni landsins, sem fer fram í sjötta sinn á lokadegi vikunnar.

Nánari upplýsingar um Athafnavikuna veitir verkefnastjóri hennar Ragnar Örn Kormáksson, s. 696-2945, ragnar@innovit.is

Áhugasamir geta einnig fylgst með framgöngu vikunnar á
Facebook síðu Innovit (www.facebook.com/innovit),
Íslenskri vefsíðu alþjóðlegrar athafnaviku (www.athafnavika.is)
Alþjóðlegri vefsíðu alþjóðlegrar athafnaviku (www.unleashingideas.org)
Myndband vegna vikunnar

5. nóvember 2012 - Engar athugasemdir

Minna tal, meiri framkvæmd

Nú styttist í að Alþjóðleg Athafnavika hefjist en í tilefni af henni er stefnt að því að halda Nýsköpunarhelgar (e. Startup Weekend) í fleiri en 130 borgum víðsvegar um heiminn. Helgarnar eru þriggja daga viðburðir þar sem fólk hittist, deilir hugmyndum, býr til teymi, hannar vörur og stofnar fyrirtæki. Markmið helganna er að fólk umbreyti hugmynd sinni í fyrirtæki eða að komast eins langt í því ferli og mögulegt er. Á 54 klukkustundum hefur fólki tekist að fara frá því að hafa óljósa hugmynd í kollinum á sér í að stofna fyrirtæki og jafnvel að tryggja fjárfestingu í lokviðburðarins.

Með þessu móti eru athafnasamir einstaklingar virkjaðir til þess að framkvæma hugmyndir sínar og búa til sín eigin störf. Innovit ásamt Landsbankanum hafa haldið sjö  Atvinnu- og nýsköpunarhelga víðsvegar hér á landi sem eru byggðar á þessari fyrirmynd og stefnt er að því að halda þrjár 2013.

Við hvetjum fólk eindregið til þess að fylgjast með á anh.is hvenær næsti viðburður verður auglýstur og skrá sig hafi það hugmynd sem því langi að vinna að eða kynnast öðru fólki og vinna að þeirra hugmyndum.

 

 

11. september 2012 - Engar athugasemdir

Áframhaldandi Snilldarlausnir

Undanfarin ár hefur Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, staðið fyrir Snilldarlausnum Marel sem er hugmyndasamkeppni framhaldsskólanna. Markmið keppninnar er að auka virði einfaldra hluta með hugmyndaauðgi og sköpunargáfu.

Nú í morgun gerði Innovit samning við Marel hf. um áframhaldandi samstarf. Þá var sömuleiðis gerður samningur við Samtök atvinnulífsins sem einnig hafa verið með frá upphafi um áframhaldandi stuðning við verkefnið. Í tilkynningu frá Innovit kemur fram að það sé félaginu ákaflega dýrmætt að fá öfluga aðila á borð við Marel og SA til liðs við sig.

Framhaldsskólanemar sýna nýsköpun sífellt meiri áhuga enda hefur fjöldi tillagna tvöfaldast milli ára í hvert sinn sem Snilldarlausnir Marel fara fram. Hvetja forsvarsmenn keppninnar ungt fólk til að taka þátt í keppninni, en einnig er auglýst eftir áhugasömum aðilum í verkefnastjórn keppninnar og er leitað til áhugasamra framhaldsskólanema sem hafa áhuga á myndbandagerð, tækni og vísindum, nýsköpun, stjórnun, viðskiptum og félagsstörfum almennt og þeim bent á að setja sig í samband við forsvarsmenn keppninnar.
Frétt af mbl.is.

19. nóvember 2011 - Engar athugasemdir

FKA í Norræna Húsinu í dag

Nýsköpunarnefnd FKA býður til fræðslufundar í Norræna Húsinu. Þar munum við hlýða á reynslusögur þriggja kvenna sem hafa látið hugmyndir sínar verða að veruleika. Hvað þarf til, hvernig komu þær sér af stað og hvaða reynslu geta þær miðlað áfram til kvenna sem standa í sömu sporum eða eru komnar með hugmynd að fyrirtæki framtíðarinnar? Dagskrá: Þórunn Jónsdóttir, formaður Nýsköpunarnefndar FKA og eigandi FAFU ehf. setur fund. Sýnd verða brot úr heimildarmyndinni Startup Kids sem þær Sesselja Vilhjálmsdóttir og Vala Halldórsdóttir hjá Matador Media eru að framleiða. Erla Gerður Sveinsdóttir – Heilsuborg: “Að fylgja eigin sannfæringu”. Ingibjörg Gréta Gísladóttir – Reykjavík Runway. Áskorarirnar í frumkvöðlabransanum og einfaldleikann við að ná árangri -Rannveig Sigfúsdóttir – Barnabros og Sigurborg. Hugmynd verður að veruleika. Aðgangur ókeypis – Kaffi og léttar veitingar til sölu. Nánari upplýsingar hér!

18. nóvember 2011 - Engar athugasemdir

Nýsköpunarmessa Háskóla Íslands

Nýsköpunarmessa Háskóla Íslands fer fram í dag kl 16 á Háskólatorgi og verða Hagnýtingarverðlaun HÍ þar veitt í 14.sinn. Nýsköpunarmessunni er m.a. ætlað að virkja nemendur Háskólans til nýsköpunar og að veita næstu kynslóð frumkvöðla innan skólans innblástur og hvatningu til að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Markmiðið með Nýsköpunarmessunni er jafnframt að vekja fólk til umhugsunar um gildi nýsköpunar og athafnasemi fyrir samfélagið, senda jákvæð og uppbyggileg skilaboð til Íslendinga og gefa þjóðinni tilefni til að horfa björtum augum fram á veginn. Allir velkomnir!

17. nóvember 2011 - Engar athugasemdir

Að þekkja markhópinn sinn

Við eigum gott spjall um ferðaþjónustu í vændum á Trúnó (Laugavegi 22), föstudaginn 18.nóvember. Yfirskrift viðburðarins er “Að þekkja markhópinn sinn”. Spennandi örfyrirlestrar og spjall frá 11:00 – 12:00. Eva María Þórarinsdóttir Lange hjá Pink Iceland og Arnar Már Ólafsson hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum fjalla um mikilvægi þess að þekkja markhópinn sinn.

Tilboð á ljúffengum veitingum :)
17. nóvember 2011 - Engar athugasemdir

Hádegisfundur Landsvirkjunnar, HR og Innovit í dag

NÝSKÖPUN Í ORKUGEIRANUM – TÆKIFÆRI Í JARÐVARMA
Háskólinn í Reykjavík, Innovit og Landsvirkjun bjóða til hádegisfundar í dag, fimmtudaginn 17. Nóvember kl. 12:00-13:00.

  • Framtíð í frumkröftum jarðar – Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdarstjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar
  • Að temja borholu – Steindór Hjartarsson – Meistaranemi hjá REYST hjá tækni- og verkfræðideild HR
  • Hvernig við búum til prótín úr brennisteinsvetni - Arnþór Ævarsson, framkvæmdarstjóri Prókatín
  • Fundarstjóri: Guðrún Sævarsdóttir, dósent og sviðsstjóri Véla og rafmagnssviðs við tækni- og verkfræðideild HR

Stund: kl. 12:00-13:00
Staður: Háskólinn í Reykjavík, V101 – ANTARES

15. nóvember 2011 - Engar athugasemdir

HR í Athafnavikunni

Háskólinn í Reykjavík tekur virkan þátt í Alþjóðlegri athafnaviku eins og áður en hér er dagskrá HR í Athafnavikunni. Þar á bæ verður m.a. boðið upp á Lögfræðiþjónustu Lögréttu á milli kl 17 og 20  á morgun, miðvikudag, á fimmtudagsmorgun munu sérfræðingar á sviði tækniþróunar í farsímum halda erindi undir yfirskriftinni “Tækniþróun og nýjungar í notkun farsíma” og á föstudag milli 14 og 16 verður haldin málstofa um “Tækifæri og áskoranir í íslenskum fataiðnaði”. Við hvetjum alla til að kynna sér og sækja áhugaverða viðburði Háskólans í Reykjavík á Alþjóðlegri athafnaviku.

15. nóvember 2011 - Engar athugasemdir

Dagskrá Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi

Dagskrá Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi má finna í heild sinni HÉR

Alþjóðleg athafnavika hófst í gær með setningu viðburðarins TEDx Reykjavík í Hörpu. Að baki viðburðinum stóðu Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, Hugmyndaráðuneytið og N1. Viðburðurinn var hinn glæsilegasti, fjölmargir íslenskir og erlendir fyrirlesarar komu fram og vel á annað hundrað gestir sóttu ráðstefnuna. Von er á fleiri flottum viðburðum í vikunni og ennþá er hægt að skrá viðburði hér á síðunni.